Afreksstefna knattspyrnudeildar Völsungs

Afreksstefna Knattspyrnudeildar Völsungs
Knattspyrnudeild Völsungs hefur nú fullmótað afreksstefnu sem unnið verður eftir. Þjálfarar,
framkvæmdastjóri og yfirmaður knattspyrnumála hafa komið að gerð stefnunnar. Núverandi staða
var greind, fortíðin skoðuð og reynt að rýna inn í framtíðina hjá félaginu við gerð Afreksstefnunnar.
Til hliðsjónar er Afreksstefna KSÍ og gildi þeirrar stefnu sem kynnt var í lok árs 2020. Einnig er stuðst
við skilgreiningar ÍSÍ á afreksfólki í íþróttum að einhverju leiti.

Knattspyrnuiðkun er fjölþættari en bara afreksstarf en til að geta sinnt þörfum allra
knattspyrnuiðkenda verður skilgreining og afreksstefna að vera til staðar. Knattspyrnudeild Völsungs
mun vinna eftir þessari stefnu er kemur að afreksstarfi í knattspyrnu.

Knattspyrnu-og Afreksstefna Völsungs
Íþróttafélagið Völsungur á sína Knattspyrnustefnu, bæði fyrir meistaraflokka og yngri flokka félagsins
(sjá hér – https://www.volsungur.is/knattspyrna/meistaraflokkar/knattspyrnustefna-volsungs /
https://www.volsungur.is/static/files/pdf/Volsungurnamsskra.pdf ). Eftir þeirri stefnu er unnið enda
brýnt að samstarf meistaraflokksþjálfara, yfirþjálfara/yfirmanns knattspyrnumála og yngri flokkaþjálfara sé gott og virkt.

Brýnt er að hafa skýra Afreksstefnu fyrir ÍSÍ, sérsamböndin og félögin í landinu.

Skilgreining á afreksfólki í íþróttum
Afreksstefna ÍSÍ skilgreinir einstaklinga og flokka sem skara fram úr í íþróttum á eftirfarandi hátt:

  • Um framúrskarandi íþróttafólk eða flokk er þá fyrst að ræða þegar einstaklingur eða flokkur
    skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum.
  • Afreksfólk eru þeir einstaklingar/flokkar sem standast viðmið í viðkomandi íþróttagrein sem
    skilgreind eru af viðkomandi sérsambandi.
  • Afreksefni teljast þeir einstaklingar/flokkar sem ekki hafa náð jafn langt en taldir eru með
    markvissri þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu.


Afreksstefnu KSÍ og þeim skilgreiningum sem þar er stuðst við má líkja við uppbyggingu ÍSÍ:

  • A landslið Íslands = Framúrskarandi íþróttafólk
  • Yngri landslið Íslands = Afreksfólk
  • Hæfileikamótun KSÍ = Afreksefni

Afreksstefna Völsungs er uppbyggð með hliðsjón af þessum skilgreiningum.


Afreksstefna Knattspyrnudeildar Völsungs:

  • Þeir leikmenn meistaraflokka sem eru valdir í landsliðshópa og eiga augljóslega eftir að taka
    stærra skref upp á við í knattspyrnu (fara til stærri liða, jafnvel erlendis) = Framúrskarandi
    íþróttafólk
  • Leikmenn meistaraflokka sem hafa getu til að spila og skuldbinda sig til 100% þátttöku og
    sinna vel = Afreksfólk
  • Leikmenn yngri flokka sem sinna iðkuninni 100%, eru valdir í Hæfileikamótun KSÍ og/eða
    yngri landslið og eru augljóslega á leið upp í meistaraflokka Völsungs = Afreksefni

 

Gildin okkar

Það er mikilvægt að skoða vel fortíðina og söguna er kemur að því að finna hver gildin okkar eru.
Hvað hefur virkað og hvað ekki. Hvað hentar okkur og hvað ekki. Hver sérstaða Knattspyrnunnar
í Völsungi er og hefur verið. Við gerum gildin 5 sem Afreksstefna KSÍ hefur að okkar en bætum
svo við sérhæfðari gildum sem eiga við Knattspyrnudeild Völsungs.

Gildi Afreksstefnu KSÍ

Skipulag
Skipulag er nauðsynlegt inni á knattspyrnuvellinum. Skipulag myndast þegar 11 leikmenn sýna
leikfræðilegan aga (e. tactical discipline) og eiga góð samskipti sín á milli.

Agi
Agi er grunnurinn að árangri, bæði í íþróttum og í lífinu. Agi er ekki aðeins metnaður eða
hugarfar. Leikfræðilegur agi er mikilvægur eiginleiki í fari afreksmanna.

Hugrekki
Hugrekki er mikilvægt í þjálfun ungra leikmanna. Leikmaður sem veit að hann má gera mistök í
leik mun reyna oftar að gera hluti inni á vellinum sem geta breytt gangi leiksins.

Ástríða
Ástríða er eldurinn sem brennur í hjarta afreksfólks. Hún er nauðsynleg til að ná langt í
knattspyrnu. Ástríðan vinnur einvígi og með henni getum við unnið sigur gegn hvaða
andstæðingi sem er.

Liðsheild
Liðsheild er fimmta gildið, og það sem sameinar hin gildin. Liðsheild er eftirsóknarverður
eiginleiki og allir Íslendingar vilja sjá samheldin landslið sem eru skipulögð, öguð, hugrökk og
ástríðufull.

Gildi íslenskrar knattspyrnu tengjast hvert öðru, vinna saman og mynda eina sterka heild. Góð
íslensk landslið á að vera hægt að þekkja á þessum gildum.

Gildi Afreksstefnu Knattspyrnudeildar Völsungs

Tækifæri
Hjá meistaraflokkum Völsungs fá allir ungir Völsungar tækifæri að sanna sig eftir að yngri
flokkum lýkur. Engum er vísað frá. Með þessu teljum við að allir eigi möguleika á að hámarka
getu sína og hafa tækifæri til að sanna sig fyrir þjálfurum á unga aldri. Leikmenn taka því oft sín
fyrstu skref í meistaraflokksbolta fyrr en gengur og gerist.

Þolinmæði
Þjálfurum meistaraflokka er uppálagt að hámarka getu uppalinna leikmanna og sýna þeim
þolinmæði áður en fengnir eru nýir leikmenn til félagsins til styrkingar. Ungir leikmenn sjá og
finna að þeir fá tíma til að sýna sig og sanna.

Traust
Leikmönnum hjá Knattspyrnudeild Völsungs er treyst fyrir þeim verkefnum sem framundan eru.
Sama hvaða leikur, mót eða deild er í gangi. Leikmönnum meistaraflokka Völsungs er treyst fyrir
öllum verkefnum og eru undirbúnir í samræmi við það.

Samstaða
Í yngri flokkum Knattspyrnudeildar Völsungs er leikmönnum kennt að sýna samstöðu og
liðsheild. Mikilvægi þess og nauðsyn ef árangur á að nást. Bæði liðs og persónulega.
Meistaraflokkar félagsins eiga að endurspegla þetta og sýna merki samstöðu hvernig sem
gengur.

Gildi Afreksstefnu Völsungs eru byggð á því starfi sem hefur verið unnið undanfarin fjölmörg ár
og eiga að brýna bæði starfsfólk og iðkendur til að halda því góða starfi áfram – og bæta í.

Hugmyndafræðin
Ein mesta ábyrgð íþróttafélags og þjálfara er að taka réttar ákvarðanir fyrir og með iðkendum
sínum. Í afreksstarfi þarf stöðugt að vinna með og aðstoða afreksefni og afreksfólk að taka
ákvarðanir er varðar þeirra iðkun og framtíð. Hér er ábyrgð Íþróttafélagsins Völsungs mikil að
sérfræðiþekking sé til staðar og hún sé nýtt.

Vinna í afreksstarfi með iðkendur er ólík eftir aldri. En hún miðast að því að undirbúa iðkandann
betur fyrir næsta skref. Það er ekki of snemmt að hefja vinnuna í yngri flokkum sé rétt að farið.
Afreksefni eiga að spila uppfyrir sig, stelpur með strákum og er það skylda félagsins og þjálfara
þess að finna stöðugt krefjandi verkefni við hæfi.

Eru úrslit leikja mikilvæg?
Svarið við þessari spurningu má finna í hugmyndafræði Knattspyrnustefnu Völsungs og
Afreksstefnu yngri landsliða Íslands.

Einfalda og rétta svarið er að því yngri sem iðkendur eru því mikilvægara er að kenna
leikmönnunum leikinn og ala upp hugrekki og jákvæð gildi. Það er mikilvægt að leikmenn þori að
gera mistök og þori að spila okkar jákvæða leik á móti sterkari andstæðingum. Með því að gefa
ungum leikmönnum frelsi til að gera mistök erum við að gefa þeim færi á að læra og verða betri.

Völsungsstiginn
Unnið er eftir Knattspyrnustefnu Völsungs upp yngri flokka. Mikilvægt í Afreksstefnu
Knattspyrnudeildar Völsungs er að leið metnaðarfullra leikmanna upp í meistaraflokk sé skýr og
augljós frá unga aldri. Ungir leikmenn séu alltaf meðvitaðir um að stiginn upp sé til staðar og
greiðfær fyrir þá sem eru reiðubúnir að leggja á sig og vinna vel. Þetta þýðir náið samstarf
meistaraflokka og yngri flokka og starfsmanna þeirra. Líkt og Landsliðsstiginn í Afreksstefnu KSÍ
þá er Völsungsstiginn í fjórum þrepum.

4.flokkur - Kynning
Leikmenn eru kynntir fyrir taktík á stórum velli, leikkerfi og leikaðferð meistaraflokkanna kennd
og sýnd. Grunngildi, hlutverk í liði og vinnuaðferð leikmanns sem hluti af heild eru kynnt fyrir
iðkendum.

3.flokkur - Innleiðing
Leikmenn æfa á líkan hátt og meistaraflokkar er varðar fitness, taktík og tækni. Kröfur eru auknar
og hugarfars-og einstaklingsþjálfun eykst. Hér eru hæfustu einstaklingarnir yfirleitt farnir að taka
að einhverju leiti þátt í starfi meistaraflokka, a.m.k. 2.flokks.

2.flokkur – Lokaundirbúningur
Leikmenn þurfa að sýna að þeir geti tekið þátt í starfi meistaraflokka. Hugarfar, metnaður og að
aðlögun að erfiðari aðstæðum. Takast á við hindranir eins og mótlæti, mismunandi hlutverk og
misjafnt gengi á vellinum. Lokaundirbúningur fyrir að vera fullgildir meðlimir meistaraflokks.

Meistaraflokkur – Lokapróf
Leikmenn á öllum aldri sinni starfinu af heilindum og skili sínu til liðsins ásamt því að eiga sín
persónulegu markmið. Krafa gerð um árangur, vinnusemi, auðmýkt og 100% þátttöku í starfinu
innan og utan vallar. Aukaæfingar, hugarfarsþjálfun, hvíld, matarræði og heilbrigt líferni orðið
eðlilegur hlutur af tilverunni. Lokapróf iðkenda fyrir möguleg áframhaldandi skref uppávið.


Lokaorð
Forsenda þess að Afreksstefna sé virk og gangi vel er umgjörð, aðstaða og hæft starfsfólk
íþróttafélagsins. Mikilvægt er að skipurit Knattspyrnudeildar sé til staðar og starfsfólk sé
meðvitað um sín hlutverk. Hornsteinn stefnunnar er að Knattspyrnudeild Völsungs haldi áfram
að gera kröfur á þjálfara sína um þjálfaramenntun og hvetja til metnaðarfullra vinnubragða og
samráðs. Einnig að leita sér upplýsinga og tileinka sér þær aðferðir sem ætlast er til að notaðar
séu. Mikilvægt er að allir átti sig á að Afreksstefna er ekki ný aðferð í þjálfun yngri flokka heldur
er verið að skerpa á þeim þætti yngri flokka þjálfunar er snýr að afreksefnum og afreksfólki
deildarinnar. Áfram er stuðst við fyrirliggjandi Knattspyrnustefnu deildarinnar.

Á hverju ári er aðferðafræði þjálfunar í yngri flokkum Knattspyrnudeildar Völsungs kynnt fyrir
foreldrum á foreldrafundum. Þar kemur fram með hvaða hætti þjálfarar geta og eiga að
meðhöndla og aðstoða afreksefni.

Aldrei má gleyma að aðstaða, aðbúnaður og gott skipulag spila lykilhlutverk í afreksþjálfun.
Lykilatriði er að endurskoða, gagnrýna og endurmeta Afreksstefnu Knattspyrnudeildar reglulega
og uppfæra þegar við á.

Afreksstefna Knattspyrnudeildar Völsungs er byggð á Afreksstefnu KSÍ er gefin var út undir lok
ársins 2020.

Samþykkt af knattspyrnuráðum og aðalstjórn Völsungs